Um höfundarétt (og -greiðslur) á myndefni

Um höfundarétt (og -greiðslur) á myndefni

 

Nýverið hleypti sveitarfélagið Fjarðarbyggð af stokkunum ljósmyndakeppni, þar sem óskað var eftir ljósmyndum úr sveitarfélaginu Fjarðarbyggð. Keppnin ber nafnið ,,Fjarðarbyggð með mínum augum” Framtakið er lofsvert um margt; vinningarnir eru veglegir og enn fremur veitt viðbótarverðlaun í hverjum flokki, sem sést sjaldan. Þá er það líka dýrmætt að fá sýn íbúanna á sveitarfélagið sitt.

Þó var ein setning í textanum sem ég, og fleiri, hnutum um:

,, Með þátttöku í samkeppninni veita þátttakendur leyfi til þess að myndefnið verði notað sem kynningarefni fyrir sveitarfélagið Fjarðabyggð.”

Mér finnst rétt að tala aðeins um þennan lið reglnanna, og hve viðsjárvert það getur verið að hafa notkunar- og birtingaleyfi eins opin og skrifað er í textanum.

Vandi ljósmynda á netinu

Ljósmyndarar af öllum stærðargráðum glíma við sameiginlegan vanda; notkun myndefnis frá þeim í leyfisleysi. Brugðist hefur verið við vandanum með fjölbreyttum hætti. Ljósmyndarar geta leitað til þjónusta á borð við www.photoclaim.com til að leita réttar síns, og krafist greiðslna fyrir óheimila notkun á myndefni. Myndstef hefur einnig beitt sér í þessum efnum og t.a.m. gefið út gjaldskrá við notkun efnis á samfélagsmiðlum.

Stundum benda fyrirtæki á að ef höfundar er getið, t.d. sem repost frá Instagram, þá falli aðrar kröfur niður, og þar með krafa ljósmyndara um greiðslu. Þar sé um að ræða aukningu á sýnileika ljósmyndarans, sem er honum í hag, og því fjárkröfur ótækar.

Allt er þetta aðstæðum háð. Ljósmyndari getur gefið grænt ljós á að fyrirtæki dreifi myndum frá sér, t.d.  með að tagga fyrirtækið á instagram eða facebook, nýta hashtögg sem fyrirtækið hefur eignað sér o.s.frv.   Hafi hann hins vegar ekki gert það, og þar með ekki óskað eftir dreifingu þeirra ( og þetta getur verið af fjölbreyttum ástæðum ) er erfitt að færa rök fyrir, að fyrirtæki greiði ekki fyrir birtinguna. Er þá ógleymt óheppilegt umtal sem fyrirtækið fær, komist ljósmyndarasamfélagið á snoðir um birtingar í leyfisleysi.

Viðurkenning og heiður

Í keppnum sem þessum, Fjarðarbyggð með okkar augum, er markhópurinn líklegar áhugaljósmyndarar frekar en atvinnuljósmyndarar. Því langar mig að velta upp nokkrum hugleiðingum:

1)
Þar sem vinningslíkur eru mismiklar eftir stærð og umfangi keppna, og vinningsupphæðir sömuleiðis, þá er það viðurkenningin og heiðurinn sem ég vil gera hér að umtalsefni. Íslenskar ljósmyndakeppnir eru yfirleitt mun smærri í sniðum en keppnir erlendis, sem og vinningsupphæðir. Eftir stendur þó, að það að ljá opinberri stofnun rödd í gegnum linsuna, er viðurkenning á færni þess sem myndina tekur. Að að baki téðri mynd liggja að öllum líkindum hundruðir, ef ekki þúsundir klukkustunda af æfingum, pælingum, stúdíum og jafnvel ferðalögum. Að ná færni í myndbyggingu; þekkingu og leikni á myndavél og hugbúnað er tímafrekt ferðalag. Enn fremur er ljósmyndun síður en svo ódýrt áhugamál og nýjar linsur, eða græjur, oft ofarlega á innkaupalistanum hjá ljósmyndurum.

2)
Til þess að geta notið góðs af þeirri viðurkenningu, þarf ljósmyndarans að vera getið. Myndaleit Google er vissulega til, og þannig e.t.v. hægt að nálgast ljósmyndarann. En þá þarf myndin að vera til á netinu þegar.

Það sem mér finnst þó allra mikilvægast, er að ef myndir eru ekki merktar eiganda / tökumanni er kynningarvald ljósmyndarans alveg tekið úr hans höndum. Ljósmyndarinn getur ekki stjórnað því hvaða ljósmyndir mæta leitandanum fyrst, né í hvaða röð þær birtast. Öll eigum við misgóðar ljósmyndir, gamla myndabanka og fleira fyrnt á netinu og ekki með öllu víst að við viljum að það sé það fyrsta sem poppi upp í leitarvélunum.

3)
Birtingar á fjölsóttum miðlum eða í prentuðu efni geta leitt af sér fleiri birtingar og greidd verkefni fyrir umræddan ljósmyndara. Ljósmyndarinn hefur með þeim styrkt stöðu sína í næstu samningaviðræðum, þegar rætt skal um birtingaverð.

Opnir notkunarskilmálar á netinu

Opnir, og óræðir, notkunarskilmálar eru sennilega einn stærsti vandi ljósmyndunar á netinu. Í fæstum tilfellum eru reglur til staðar og því oft vafaatriði hvað skuli teljast sem birting og hvað ekki. Ekki má með góðu móti segja hvort Retweet eða repost teljist sem birting. Sumir ljósmyndarar telja sig eiga rétt á greiðslu birtist mynd frá þeim með einum hætti eða öðrum, en aðrir láta sér vel við una að myndirnar þeirra nái til stærri hóps. Þessa einstaklinga má ekki fella undir sama hatt.

Ég tel að opinberar stofnanir, sveitafélög og önnur bolmeiri framtök búi að þeim munaði að geta gengið fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi; sýnt öðrum hvernig best sé að gera (e. best practices)

Í dæmi Fjarðarbyggðar myndi ég leggja til að ljósmyndir, sem birtast á vegum sveitafélagsins, yrðu merktar með stöðluðum hætti á vefmiðlum og á prenti. Á vefmiðlum mætti t.d. skrifa nafn, instagram eða facebook auk heimasíðu eða porfolio síðu. Á prenti mætti nægjast við nafn og samfélagsmiðil eða heimasíðu.