Elsku vinir og fjölskylda,

Við óskum ykkur innilega gleðilegrar hátíðar. Við vonum að þessi tími verði ykkur jafn yndislegur og hjá okkur. Með hamingju, kærleika, hlátur og gleði í fyrirrúmi er best að njóta samverustunda með sínum nánustu. Við vonumst svo sannarlega til að geta hitt og knúsað sem flest ykkar á nýju ári.


Þvílíkt ár sem 2020 hefur verið! Það er nokkuð ljóst að að þetta ár mun líða fólki seint úr minni, en hjá okkur Sigtúns-genginu hefur þetta verið ,,árið sem allt gerðist”.

Í byrjun árs fundum við Eva að nú þyldi það ekki meiri bið að við flyttum inn saman. Í kjölfarið fékk Ingi flotta stöðu hjá Nýsköpunarmiðstöð með starfsstöð á Sauðárkróki. Það var hið mesta heillaskref og tókum við strax til við að gera Grenihlíðina að ,,hreiðrinu okkar”. Veggir voru málaðir, ljósum skipt út og húsgögn færð til. Enda nutum við liðsinnis skeleggs listræns stjórnanda, Árneyjar Maríu, sem vissi sko upp á hár hvaða veggir skyldu vera gulir og hvaða ofnar skyldu vera grænir. 

En Adam var ekki lengi í Paradís, því stuttu eftir flutningana var tilkynnt um fyrirhugaða lokun Nýsköpunarmiðstöðvar á haustmánuðum. Nú voru góð ráð dýr.

En eins og Evu einni er lagið var ekki um að ræða vandamál, heldur verðuga áskorun, og eins og hendi væri veifað var búið að skipuleggja búferlaflutninga Grenihlíðar-gengisins inn í snyrtilega litakóðað excel-skjal. Stefnan var tekin til Reykjavíkur.

Amma Pim hjálpaði okkur að kaupa fallega íbúð í Laugardalnum, í Sigtúni 35, og Afi Baldur lánaði okkur stóra brumm til að koma innbúinu yfir heiðina. Við fengum til liðs við okkur vaskan flokk vina og fjölskyldumeðlima til að ferja búslóðina upp á efstu hæð. Við kunnum ykkur öllum bestu þakkir fyrir – þið vitið hver þið eruð.

Þegar til Reykjavíkur var komið var kominn tími til að koma hversdagsleikanum í skikkanlegt horf. Árney María byrjaði í nýjum leikskóla, Sunnuási, og Ingi byrjaði aftur í Listaháskólanum til að ljúka prófinu í grafískri hönnun. Bæði hafa þau tekið miklum framförum og njóta þess að læra og leika. Árney María byrjaði líka á haustmánuðum að æfa ballett í Ballettskóla Eddu Scheving þar sem hún æfir fyrstu pósísjón, plíé og hvað þetta heitir allt saman af mikilli einbeitingu og dugnaði tvisvar í viku, þegar hún er hjá okkur. Í september héldum við svo afmælisveisluna hennar hér í Sigtúni, búningapartý, þar sem ýmis konar furðuverur skutu upp kollinum. Í október héldum við svo upp á þrítugsafmælið hennar Evu, með rafrænum hætti, þar sem vinir og fjölskylda slógu saman í forláta Kitchen aid-vél, sem hefur svo sannarlega sannað ágæti sitt á aðventunni.

Frá því að við fluttum til Reykjavíkur hefur Eva unnið í fjarvinnu fyrir Byggðastofnun og hefur notið þess einstaklega vel, enda enginn vinnustaður eða vinnufélagar betri í heiminum – að hennar sögn. Hún hlaut formannstitil í kosningu til stefnu- og málefnanefndar Pírata og leiðir það starf af miklum krafti. En Eva réri líka á ný mið á árinu og í nóvember lauk hún námskeiði í förðun, með miklum glæsibrag.

Ingi hefur heldur ekki setið auðum höndum, frekar en venjulega. Reykjavik Lettering hefur vaxið og dafnað á árinu með glænýrri vefverslun og virðist áhugi fólks á skrift sífellt aukast. Samhliða náminu er hann mikið í því að smíða heimasíður og hanna grafík ásamt að streyma tónleikum og viðburðum beint á netinu með félaga sínum Togga.

En þá er ónefnd ein stærsta fregn ársins hjá okkur litlu fjölskyldunni í Sigtúni. Í maí fórum við í snemmsónar hjá Þorsteini lækni á Sauðárkróki til að heyra í fyrsta sinn hjartsláttinn hjá litla krílinu sem vex og dafnar með hverjum degi. Eva hefur staðið sig alveg frábærlega vel og tekið áskorunum meðgöngunnar af yfirvegun og æðruleysi. Ingi hefur svo lagt hönd á plóg með tiltækum ráðum: baknuddum, eldamennsku og stuðningsríku viðmóti.

 

Þegar þetta er skrifað er ekki nema rétt tæpur mánuður í settan dag og við öll orðin heldur betur spennt fyrir komu nýja fjölskyldumeðlimsins. Þau ykkar sem fylgjast með samfélagsmiðlunum munuð sennilega ekki fara varhluta af barnamyndunum, sem munu sennilega flæða í stríðum straumum.

Elsku vinir og fjölskylda, við sendu ykkur öllum hjartlægar jóla- og áramótakveðjur og óskum ykkur friðar, samveru og velsældar þessi jól og áramót og ljúkum því þessari jólakveðju með innslagi frá Sokkabrúðuleikhúsinu í Sigtúni:

Okkur þætti gaman að fá líka kveðju frá þér/ykkur til baka 🙂